Innlent

Hyggst leggja fram frumvarp um hjónavígslu samkynhneigðra

MYND/E.Ól
Frumvarp um bætta réttarstöðu samkynhneigðra verður væntanlega samþykkt fyrir þinglok í vor og jafnvel strax í næstu viku. Í því er ekki lagt til að trúfélög fái að gefa saman samkynhneigð pör en Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hyggst leggja fram sérfrumvarp þar að lútandi þar sem hún telur þverpólitískan stuðning við það.

Allsherjarnefnd hefur afgreitt frumvarp sem miðar að því að bæta réttarstöðu samkynhneigðra. Í því felst meðal annars að samkynhneigðir geti skráð sambúð sína í þjóðskrá en því fylgja ýmis fjárhagsleg réttindi. Þá öðlast samkynhneigðir með frumvarpinu rétt til frumættleiðingar og konum í staðfestri samvist eða sambúð verður heimilt að fara í tæknifrjóvgun. Hins vegar er ekki lagt til að trúfélög fái að staðfesta samvist samkynhneigðra og bent á að umræða um málið þurfi lengri aðdraganda og vandaðri undirbúning.

Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar hins vegar að leggja fram sérfrumvarp um það mál enda telur hún að það njóti breiðs stuðnings á þingi. Hún býst þó ekki við að það verði samþykkt á vorþingi. Guðrún segir frumvarpið sem allherjarnefnd samþykkt mikla réttarbót og von á því að það fljúgi í gegnum þingið á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×