Innlent

Útför Magneu Þorkelsdóttur var í dag

Magnea Þorkelsdóttir biskupsfrú var borin til grafar í dag. Útförin fór fram í Hallgrímskirkju í Reykjavík að viðstöddu fjölmenni. Magnea lést þann 10. þessa mánaðar, 95 ára að aldri. Árið 1933 giftist hún eftirlifandi manni sínum, Sigurbirni Einarssyni, sem síðar varð biskup. Þau eignuðust átta börn og alls eru afkomendur þeirra 73. Sonur þeirra hjóna, Karl Sigurbjörnsson, er núverandi biskup Íslands. Eftir Magneu liggur mikið safn hannyrða, meðal annars hökull Breiðabólstaðarkirkju á Skógarströnd sem hún saumaði eftir teikningu Nínu Tryggvadóttur. Hún var sérfróð um íslenska þjóðbúninga og saumaði meðal annars þjóðbúninga fyrir alþingishátíðina 1930. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín. Meðal viðstaddra í Hallgrímskirkju í dag var Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff kona hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×