Innlent

Landsbjörg sátt við frammistöðuna

MYND/Ómar Ragnarsson RÚV

Forsvarsmenn Landsbjargar og Landhelgisgæslu eru ánægðir með björgunaraðgerðir við mjög erfiðar aðstæður á Hofsjökli á laugardag þrátt fyrir að þrír tímar hafi liðið þar til komið var niður í sprunguna til hinna slösuðu.

Björgunin á Hofsjökli var langstærsta björgunaraðgerð vetrarins og sú stærsta í langan tíma að sögn Landsbjargar, en alls tóku um þrjú hundruð björgunarmenn þátt í lofti og á landi. Vel gekk að samhæfa verkið enda eru sveitirnar vanar að æfa saman og starfa samkvæmt skýrum verklagsreglum. Kristján Maack sem stjórnaði aðgerðum, segir viðbragðstíma þyrlunnar og annarra fullkomlega eðlilegan, um 45 mínútur fari í flugtíma og þar að auki hafi þurft að leita að slysstaðnum í 30-40 mínútur.

Hann segir fréttir RÚV um að fjarskipti hafi verið erfiðar milli björgunaraðila eiga sér eðlilegar skýringar. Þetta hafi í raun verið fyrirséð þar sem verið væri að vinna með erlendum aðilum sem þar að auki séu á vegum tveggja erlendra herliða. Gott samband hafi verið við dönsku þyrluna allan tímann á stuttbylgju en að bandaríski herinn sé aldrei stilltur inn á þá bylgjulengd sem íslenskir björgunaraðilar noti í aðgerðum. Þetta hafi verið leyst með milligöngu dönsku þyrlunnar sem hafi verið í góðu sambandi við Bandaríkjamennina og eins með góðri hjálp flugvéla sem voru á staðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×