Innlent

Kunna ekki að reikna út skattbyrði almennings

Hvorki Fréttastofa NFS, Kastljós Ríkissjónvarpsins, Stefán Ólafsson prófessor né ríkisskattstjóri, kunna að reikna út skattbyrði almennings, að mati Árna M. Mathiesens fjármálaráðherra.  Árni gerði í gær formlega athugasemd við umfjöllun Kastljóssins á Ríkissjónvarpinu um skattamál, þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að skattbyrði hafi aukist hjá öllum tekjuhópum nema hátekjumönnum í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka.

Ráðherra segir í athugasemd sinni að hér sé byggt á samanburði ósamanbærilegra talna og gefið til kynna að fjármálaráðherra hafi farið með rangt mál. Niðurstöður Kastljóssins hníga mjög í sömu átt og  eldri niðurstöður NFS, sem ráðherra gagnrýndi þá harðlega, og í sömu átt og niðurstöður Stefáns Ólafssonar prófessors, sem fjármálaráðherra hefur líka mótmælt. Svo staðfesti Ríkisskattstjóri í gær þá niðurstöðu Landssambands eldri borgara, að skattbyrði hafi þyngst á þeim sem lægstar tekjur hafa eða ellilífeyri, líkt og allir fyrrtaldir hafa gert.

þetta rifjar upp að meðal þess sem stjórnarandstöðuþingmenn bentu á í mótmælum sínum, þegar ríkisstjórnin ákvað að leggja niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma,var að þjóðhagstölur myndu þá koma beint frá fjármálaráðuneytinu , í þeim búningi, sem best hentaði stjórnarherrunum, en ekki á faglegum forsendum þjóðhagsstofnunar, sem stundum voru í óþökk stjórnarherranna.---




Fleiri fréttir

Sjá meira


×