Sport

Alan Smith ökklabrotinn

Hlúð að Smith eftir meiðslin.
Hlúð að Smith eftir meiðslin. NORDICPHOTOS/GETTY IMAGES

Alan Smith leikmaður Manchester United verður frá í mjög langan tíma en hann ökklabrotnaði illa í 1-0 tapleiknum gegn Liverpool i FA bikarkeppninni í dag. Þetta er mikið áfall fyrir United sem eru þegar þunnskipaðir á miðjusvæðinu.

Sir Alex Ferguson stjóri United segir að þetta sé eitt ógeðfelldasta brot sem hann hefur séð á ferli sínum sem spannar nokkra áratugi. Smith lenti illa á vellinum eftir að hann stökk fyrir aukaspyrnu John Arne Riise og lá sárþjáður og náfölur á vellinum.

Hann var samstundis settur í spelku og þurfti hann súrefni á leið sinni af vellinum en farið var með hann beint á sjúkrahús þar sem hann þarf að gangast undir aðgerð. Mark Weller læknir Liverpool hjálpaði til við að hlúa að Smith.

"Ég hef sjaldan séð það verra. Hann er fótbrotinn og ökklinn á honum fór úr lið. Hann verður frá í mjög langan tíma, við styðjum allir við hann. Alan er hugrakkur piltur. Ég vissi ekki strax hvað gerðist þar sem ég fylgist með boltanum en maður sá það á viðbrögðum leikmanna að þetta var mjög slæmt," sagði Sir Alex Ferguson eftir leikinn.

Það fyrsta sem Rafael benítez stjóri Liverpool sagði eftir leikinn var þetta: "Við finnum allir til með Smith. Það er alltaf leiðinlegt að sjá leikmenn meiðast, hvoru megin sem meiðslin gerast. Við óskum honum góðs og snöggs bata," sagði Benítez áður en hann hrósaði sínum mönnum fyrir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×