Erlent

Breskir njósnarar?

Útvarpssendir í grjóthnullungi sem varpar rússneskum ríkisleyndarmálum til breskra sendiráðsstarfsmanna. Nei, þetta er ekki atriði úr kvikmynd um njósnara hennar hátignar heldur raunverulegar ásakanir rússneskra stjórnvalda á hendur Bretum.

Ráðsherrarnir í Kreml eru æfir út í Breta eftir að rússnesk sjónvarpsstöð birti myndir af mönnum á ferli í Moskvu sem sagðir eru breskir njósnarar að störfum. Í sjónvarpsþættinu var því haldið fram að fjórir breskir sendiráðsstarfsmenn og einn Rússi hefðu komið fyrir útvarpssendi í steini sem stendur við gangstéttarbrún og úr honum væri leyniupplýsingum varpað yfir í tölvur. Aukl þess var Bretunum gefið að sök að styrkja félagasamtök sem stunda undirróður í Rússlandi.

Breska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem áburðinum var vísað á bug en sú staðreynd að ásökunum er svarað sýnir að málið er tekið alvarlega í Lundúnum. Í yfirlýsingunni var jafnframt tekið tekið fram að áfram yrði stutt við bakið á rússneskum mannréttindasamtökum enda væri ekkert athugavert við slíkan fjárstuðning. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur hins vegar látið þá skoðun sína í ljós að Vesturlönd noti slík samtök í pólitískum tilgangi. Stutt er síðan að rússneska þingið samþykkti lög sem setja starfsemi félagasamtaka verulegar skorður og því telja margir að njósnahneykslið sé í raun yfirvarp stjórnvalda til að geta klekkt enn frekar á þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×