Erlent

Anibal Carvaco Silva næsti forseti Portúgals

Anibal Carvaco Silva og eiginkona hans Maria.
Anibal Carvaco Silva og eiginkona hans Maria. Mynd/AP

Hægrimaðurinn Anibal Carvaco Silva verður næsti forseti Portúgals en kosningar voru haldnar í landinu í gær. Engu mátti muna að til annarrar umferðar hefði komið. Cavaco Silva fékk 50,6% atkvæða í kosningunum í gær og munaði því aðeins hálfu prósentustigi að kjósa þyrfti aftur á milli hans og ljóðskáldsins Manuel Alegre, sem fékk rúman fimmtung atkvæða. Mario Soares, fyrrverandi forseti, sem einnig bauð sig fram beið hins vegar afhroð. Cavaco Silva var áður forsætisráðherra hægri stjórnarinnar sem var við völd á árunum 1985-95 en á þeim tíma var mikil efnahagsuppbygging í Portúgal. Þótt forsetinn hafi lítil formleg völd binda margir vonir við að Cavaco Silva beiti sér í að koma hagvaxtarhjólunum af stað í landinu á ný. Í sigurávarpi sínu hét forsetinn því að vinna með ríkisstjórninni við að auka hagsæld og atvinnu. Cavaco Silva er fyrsti hægrimaðurinn sem sest í forsetastólinn í Portúgal eftir að herforingastjórninni var komið frá völdum árið 1974 og lýðræði komið á. Hann er sagður hliðhollur Evrópusambandinu og vill að Sameinuðu þjóðirnar fái aukið vægi á alþjóðavettvangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×