Erlent

Uppreisnarmenn handteknir í Írak

MYND/AP

Danskar og írakskar hersveitir handtóku þrjátíu og sex uppreisnarmenn í víðtæku áhlaupi á vígi uppreisnarmanna norðan við borgina Basra í Írak á mánudaginn.

Hermennirnir gengu hús úr húsi í al-Kúrna héraði, þar sem fjöldi uppreisnarmanna heldur til. Að sögn herstjóra í danska hernum hafa mennirnir sem voru handteknir allir gerst sekir um rán og ofbeldisverk, eða hreinlega morð. Þeir hafa allir verið fluttir í herfangelsi rétt utan við Basra.

Rúmlega fimm hundruð danskir hermenn eru við störf í Írak. Ráðgert var að þeir færu heim fyrsta febrúar, en fastlega er búist við að dönsk stjórnvöld framlengi dvöl hersins í landinu um hálft ár.

Í gær tilkynnti danska ríkisstjórnin svo að til stæði að senda fleiri danska hermenn til Afghanistan, til að aðstoða við störf NATO í landinu. Nú eru um 180 danskir hermenn í Afghanistan, en Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur sagði í gær að til stæði að senda aðra 180 hermenn til landsins

Loforð Danmerkur er í takt við samþykkt utanríkisráðherra NATO ríkjanna frá í desember. Samkvæmt henni mun Atlantshafsbandalagið taka að sér víðtækara hlutverk í Afghanistan á næstunni og samhliða verður bandarískum hermönnum í landinu fækkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×