Erlent

Hjálparstarf í Kasmír lamað

MYND/AP

Dynjandi úrkoma og aurskriður hafa lamað hjálparstarf í fjöllum Kasmír síðan um helgina. Eftirlifendur jarðskálftans sem hafast við hátt uppi í fjöllum eru algerlega afskiptir.

Sameinuðu Þjóðirnar hafa nú keppst við að koma hjálpargögnum á skjálftasvæðin í meira en þrjá mánuði. Bærilega hefur gengið á ákveðnum svæðum, en þær tugþúsundir sem búa í yfir fimmtán hundruð metra hæð eru hins vegar mjög afskiptar og nú hefur ekki tekist að koma neinum gögnum upp í fjöllin í þrjá daga, því að flug hefur legið niðri vegna veðurs.

Jarðfræðistofnun Pakistans spáir mikilli snjókomu næstu dagana og varar við hættu á snjóflóðum ofan á allt annað. Það gæti valdið enn frekari töfum á hjálparstarfi. Það gerir svo illt verra að úrkoman veldur líka aurskriðum, sem hafa teppt helstu samgönguæðar á landi.

Eftir að úrkomunni slotar mun taka minnst þrjá daga að hreinsa vegina upp í fjöllin.

Þó að enn sé ekki hægt að rekja nema nokkur dauðsföll beint til kuldanna í Pakistan er ljóst að margir munu ekki halda út við þessar aðstæður ef kuldarnir halda áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×