Erlent

Minntust átaka við Sovétmenn

Kveikt var á kertum við sjónvarpsturninn í Vilníus þar sem fjórtán Litháar féllu í átökum við sovéska hermenn.
Kveikt var á kertum við sjónvarpsturninn í Vilníus þar sem fjórtán Litháar féllu í átökum við sovéska hermenn. MYND/AP

Litháar minntust þess í dag að fimmtán ár eru frá umsátrinu um sjónvarpsturninn í Vilníus. Fjórtán manns létust í átökum við sovéska hermenn en þrátt fyrir það er sú stund talin marka endalok sovéskra yfirráða í landinu.

Um þúsund manns komu saman í Antalkalnis grafreitnum í Vilníus til að minnast þeirra sem létust fyrir fimmtán árum þegar Sovétmenn reyndu að brjóta niður sjálfstæðisbaráttu Litháa. Vytautas Landsbergis, sem leiddi sjálfstæðisbaráttu Litháa og varð fyrsti forseti landsins, lagði blómsveit að minnisvarða um þá sem létust og Valdas Adamkus forseti sagði athöfnina til marks um að Litháar héldu fast í kröfuna um lýðræði og frelsi og væru reiðubúnir að berjast fyrir því ef þörf krefði.

Sovésk stjórnvöld ætluðu sér í ársbyrjun 1991 að bæla niður kröfur Eystrasaltsþjóðanna um sjálfstæði. Hermönnum var því skipað að berja mótmæli Litháa og nágranna þeirra niður og kom tvisvar til blóðugra átaka, fyrst í Vilníus þar sem fjórtán létust og viku síðar í Lettlandi þar sem fimm létust. Sovétmönnum tókst þó ekki að brjóta niður andstöðu íbúa Eystrasaltsríkjanna heldur varð valdbeitingin frekar til að þjappa þeim saman. Seinna sama ár fengu Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen sjálfstæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×