Innlent

Íslendingar láta ekki fuglaflensu trufla fyrirhugaðar sólarlandaferðir

Tyrkland
Tyrkland MYND/AP

Á sama tíma og fréttir berast af fuglaflensutilfellum í mönnum í Tyrklandi er ekkert lát á bókunum hér á Íslandi á sólarlandaferðum til Tyrklands í sumar.

Þrjú systkini létust úr fuglaflensu í Tyrklandi í síðustu viku og matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur varað við að fuglaflensa geti orðið landlæg í Tyrklandi. Íslendingar virðist hins vegar ekki láta fréttir af fuglaflensu á sig fá þegar kemur að því að bóka sólarlandaferðir fyrir sumarið. Salan á ferðum til Tyrklands hjá Úrval Útsýn hófst fyrir fullt og allt um áramótin og þegar hafa 1.500 sæti verið bókuð. Helgi Eysteinsson markaðsstjóri hjá Úrval Útsýn segir að sala á ferðum hafi gengið vel í vikunni og að þeir sem hafi keypt sér ferðir út virðist ekki hafa áhyggjur af fuglaflensu. Helgi segir að það séu aðallega fjölmiðar sem hringi í þá vegna málsins en flestir þeir sem hafi bókað sér ferðir telji ekki þörf á að hafa áhyggjur að svo stöddu.

Landlæknisembættið mælir ekki gegn ferðum til Tyrklands að sögn Haraldar Briem sóttvarnarlæknis. Ekki er talið að ferðamenn séu í hættu þar sem engin merki eru um að fuglaflensa berist á milli manna. Á heimasíðu Landlæknisembættisins er fólki sem er á ferð um svæði þar sem fuglaflensa hefur komið upp meðal annars bent á að forðast að komast í snertingu við lifandi hænsfugla og villta fugla. Einnig að borða ekki ósoðið eða illa soðið fuglakjöt eða egg.

Helgi segir að ef svo farið að mælt verði með ferðatakmörkunum til Tyrklands þá verði komið til móts við þá sem hafi bókað ferðir. Þeim verði þá endurgreiddur sá kostnaður sem þeir hafi lagt út og reynt að selja þeim aðrar ferðir í staðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×