Innlent

Heildarafli minnkar um 61 þúsund tonn milli ára

Heildarafli ársins 2005 var 1.667.287 tonn samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Það er 61 þúsund tonnum minni afli en árið áður. 157 þúsund tonnum minni kolmunnaafli skýrir þennan samdrátt segir í tilkynningu frá Fiskistofu . Á móti aflasamdrætti í kolmunna vó 80 þúsund tonna aukning í loðnuafla og 40 þúsund tonna aukning í síldarafla á árinu. Afli íslenskra skipa í desember 2005 var tæplega 72 þúsund tonn en aflinn var 85 þúsund tonn í desember 2004. Samdráttur afla milli ára stafar af minni afla uppsjávartegunda. Vegur þar mest rúmlega 8 þúsund tonna samdráttur í síldarafla. Hins vegar veiddust rúmlega 9 þúsund tonn af loðnu við loðnuleit í desember 2005, sem er meiri loðnuafli en fékkst í desember 2004.

 

Botnfiskaflinn í desember var 36.476 tonn en botnfiskaflinn var 36.945 tonn í desember 2004. Afli flestra botnfisktegunda var álíka og í desember 2004. Hins vegar var engin rækjuveiði við Ísland í desember og skelveiði liggur niðri núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×