Innlent

Mikilvægast að losa koltvíoxíð úr andrúmsloftinu

Wallace S. Broecker, sem talinn er með einum fremstu vísindamönnum heims í rannsóknum á umhverfis- og loftslagsbreytingum jarðarinnar, telur mikilvægast að losa koltvíoxíð úr andrúmsloftinu til að sporna gegn gróðurhúsaáhrifunum. Hann flytur fyrirlestur um gróðurhúsaáhrifin í Öskju, Náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands á föstudag.

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í fyrirlestrarröð sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands hefur beitt sér fyrir undir heitinu Nýir straumar. Þar er meiningin að fá vísindamenn, fræðimenn og forystumenn í listum, menningu og alþjóðamálum í heiminum heimsæki Ísland og haldi hér fyrirlestra.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að í fyrirlestrinum muni Broecker fjalla um hvernig mannkynið geti tekist á við hlýnun loftslags af völdum gróðurhúsaáhrifa og hvernig meta megi áhrif koltvíoxíðs í andrúmsloftinu. Orkunotkun mannkyns muni halda áfram að aukast og kol verði um langa framtíð algengasta orkuformið.

Broecker telur að brottnám koltvíoxíðs úr andrúmslofti og binding þess djúpt í jörðu sé ein mikilvægasta leiðin til að takast á við loftslagsbreytingar. Fyrirlesturinn er haldinn í samvinnu við Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun háskólans og er öllum opinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×