Innlent

Álver á Norðurlandi fjórða í röðinni

Álver á Norðurlandi stefnir í að verða númer fjögur í röð framkvæmda við frekari álversuppbyggingu hérlendis. Nýtt álver í Helguvík og meiri stækkun í Straumsvík og á Grundartanga verður líklega ofar á listanum en álver á Norðurlandi.

Smíði álversins á Reyðarfirði samhliða gerð Kárahnjúkavirkjunar eru taldar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar en þær munu ná hámarki næsta sumar og ljúka á næstu tveimur árum. Jafnframt standa yfir miklar framkvæmdir við stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga en þeim fylgja framkvæmdir við jarðgufuvirkjanir á Nesjavöllum, Hellisheiði og Reykjanesi.

Þegar spurt er hvaða stóriðjuframkvæmd verður næst á dagskránni má ætla á umræðunni að röðin komi næst að Norðurlandi. Ný áætlun Landsvirkjunar um að raforka fyrir álver á Norðurlandi verði ekki tilbúin fyrr en 2012 setur hins vegar þrenn önnur stóriðjuáform fram fyrir Norðurland. Lengst eru komin áform um frekari stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga. Áform um byggingu álvers í Helguvík eru komin á fleygiferð en fulltrúar Reykjanessbæjar, Norðuráls og ríkisins rituðu nýlega undir aðgerðaáætlun um að þarna rísi 250 þúsund tonna álver. Alcan í Straumsvík áformar líka álversframkvæmdir og vill stækka verksmiðju sína í allt að 420 þúsund tonn.

Þegar þessi áform eru sett í tímasamhengi stefnir í að stækkun á Grundartanga verði sett í framkvæmd á árunum 2006 til 2008, álver í Helguvík geti risið á árunum 2008 til 2010 og stækkun í Straumsvík staðið yfir á sama tíma. Álver á Norðurlandi, sem líkast risi við Húsavík, kæmi hins vegar á eftir öllum hinum og yrði byggt á árunum 2010 til 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×