Innlent

Takmarkaðir vöruflutningar víða um land vegna hláku

Vöruflutningar um helstu samgönguleiðir landsins, þar á meðal á milli Reykjavíkur og Akureyrar, hafa verið takmarkaðir vegna aurbleytu og hættu á slitlagsskemmdum. Hver trukkur verður að skerða farm sinn um allt að fimm tonn í hverri ferð.

Við kannski leggjum fæst við hlustir þegar við heyrum tilkynningu um þungatakmarkanir á þjóðvegum frá Borgarnesi um Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra. Fyrir flutninganet landsins og sérstaklega alla stóru trukkana hefur þetta hins vegar mikil áhrif. Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips , segir þungatakmarkanirnar vera slæmt mál. Flutningabíla megi ekki flytja meira en fimm tonn í fer þegar þungatakmarkanir séu í gildi. Og það var ekki bara um að ræða gamla malarvegi í afdölum heldur var Vegagerðin í gær að takmarka leyfilegan hámarksfarm á mikilvægustu flutningaleiðum innanlands.

Guðmundur segir það mjög athyglisvert að þungatakmarkanir séu á flutningaleiðinni milli Norðurlands og Reykjavíkur árið 2006 og það um miðjan vetur. Þetta sé mjög einkennilegt. Fyrir hvern bíl geti þetta þýtt tekjuskerðingu um tugi þúsunda króna í hverri ferð.

Þegar haft er í huga að helstu flutningafyrirtækin eru með yfir 300 flutningabíla í stöðugum ferðum milli landshluta geta þetta roðið háar fjárhæðir þegar saman safnast og mikið umstang því gámur sem fæst ekki fullnýttur á bíl frá Húsavík til Reykjavíkur gæti verið á leið áfram með skipi út í heim.

Guðmundur segir það ekki bara slæmt að þeir geti flutt minna magn í hverri ferð heldur þurfi að fara í gegnum innihald hvers gáms sem kemur hingað til lands til að gera klárt fyrir framhaldsflutning á leiðarenda hvar sem er í heiminum. Að mati Guðmundar er aðeins ein lausn á málinu og það er að gera breiðari og sterkari vegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×