Innlent

Meirihlutinn í Kópavogi boðar til funda til að finna lausn á vandamálum leiksskólanna

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi hafa ákveðið að bjóða fulltrúum starfsmanna á leikskólum, formönnum foreldrafélaga og fulltrúum leiksskólakennara í Leiksskólum Kópavogs til viðræðna um ástandið í leiksskólum bæjarins. Ráðgert er að funda með með fulltrúum hvers hóps fyrir sig á morgun og á mánudag. Þetta kemur fram í tilkynningu meirihlutans í Kópavogi. Tilkynningin er svohljóðandi:

Tilkynning frá bæjarfulltrúum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi

 

Undanfarið hafa Kópavogsbæ borist uppsagnir starfsmanna á leikskólum og í kjölfarið hafa foreldrar látið í ljós óánægju með að bæjaryfirvöld skuli ekki gera betur grein fyrir því á hvern hátt þau munu bregðast við þessum vanda sem nú steðjar að.  Þess skal getið að bæjarstjóri hefur ítrekað getið þess opinberlega að tilkynnt verði um aðgerðir í kjaramálum starfsmanna leikskóla eftir að haldin hefur verið launaráðstefna sveitarfélaganna 20. janúar nk.  

 

Vegna augljósrar og almennrar óánægju hagsmunaaðila með ástand leikskólamála hélt meirihlutinn í Kópavogi fund í hádeginu 5. janúar.  Samþykkt var að bjóða fulltrúum starfsmanna á leikskólum, formönnum foreldrafélaga og fulltrúum leikskólakennara í Leikskólum Kópavogs til viðræðna um ástandið í leikskólum bæjarins.  Áætlað er að  halda fundi með fulltrúum hvers hóps fyrir sig á föstudaginn 6. janúar og á mánudaginn 9. janúar.  Vonast er til þess að fundirnir leiði af sér gagnkvæman skilning og að óvissu um stöðu leikskólamála verði eytt.  Fundunum er ætlað að kynna þær leiðir sem meirihlutinn vill fara til þess að tryggja áframhaldandi þjónustustig leikskólanna til frambúðar.

 

Kópavogi, 5. janúar 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×