Innlent

Matvælaverð óviðunandi hærra að mati forsætisráðherra

MYND/Vilhelm

Árið sem leið var íslensku þjóðinni happadrjúgt, að mati Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, sem í gærkvöld ávarpaði þjóðina öðru sinni sem forsætisráðherra landsins.

Staða efnahagsmála er með besta móti hvort sem litið er til samanburðar við fyrri ár eða til annarra landa. Hagvöxtur er hér meiri en í flestum nágrannaríkjum. Atvinnuleysi, sem víða um lönd er hinn mesti vágestur, er lítið og nær væri að tala um skort á vinnuafli. Bætt velferð heimilanna hefur verið markmið og leiðarljós ríkisstjórnarinnar og því leiðarljósi verður áfram fylgt á nýju ári.

En tilveran er ekki tóm sæla og hamingja, og Halldór benti landsmönnum á að nýliðið ár hefði verið sannkallað ár náttúruhamfara, og tiltók þar sérstaklega fellibylina sem riðið hefðu yfir Bandaríkin og það sem var enn skelfilegra; jarðskjálftana Pakistan og sinnuleysi okkar Vesturlandabúa gagnvart þeim hörmungum.

Við sem erum svo lánsöm að vera yfirleitt fjarri heimsins ógn og hörmungum megum alls ekki láta doða gagnvart umhverfinu og þeim sem minna mega sín ná tökum á okkur. Okkur ber skylda til að rétta öðrum hjálparhönd og gefa af því allsnægtarborði sem við sitjum við.

Velferð íslensku fjölskyldunnar var ofarlega í huga forsætisráðherra á áramótum, sem er í fullu samræmi við loforð Framsóknarflokksins í kringum alþingis og sveitarstjórnarkosningar. Og Halldór blés í herlúðra til að bæta hag hinnar íslensku fjölskyldu.

Fátt skiptir hag fjölskyldunnar meira máli en verðlag á brýnustu nauðsynjum. Ekki verður við það unað til framtíðar að matvælaverð á Íslandi sé langt umfram það sem er í grannríkjum okkar. Ég hef þess vegna ákveðið að setja á fót nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðilum vinnumarkaðarins og samtökum bænda til að skoða og skilgreina ástæður þessa og koma með tillögur um úrbætur í þessu efni.

Og öryrkjar eru ofarlega í huga forsætisráðherra í upphafi árs.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að gera sérstakt átak í málefnum þeirra og leggja áherslu á starfsendurhæfingu og gera þær ráðstafanir sem auðvelda mega öryrkjum að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×