Innlent

Allt að fimmtungur yfir sjötugu með hjartadrep

MYND/GVA

Allt að fimmtungur fólks yfir sjötugu er með hjartadrep án þess að hafa nokkra hugmynd um það. Þetta leiða rannsóknir Hjartaverndar í ljós. Samtökin hafa nú fengið ríflega 60 milljóna króna styrk til að kanna betur áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma fólks á efri árum.

Styrkinn veita stofnanir innan bandaríska heilbrigðisráðuneytisins. Hjartavernd hefur um síðust ár átt samstarf við öldrunarstofnun ráðuneytisins í svokallaðri öldrunarrannsókn.

Hjartavernd hefur meðal annars beitt segulómun með góðum árangri til að greina svokölluð þögul hjartadrep í hjartavöðvanum en þau má rekja til kransæðastíflu og hjartaáfalla sem fólk veit ekki af. Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar, segir að ef ekki sé reynt að hjálpa hjartavöðvanum gefi hann smám saman eftir og á endanum leiði það til hjartabilunar sem sé einn lúmskasti sjúkdómur sem herji á fólk á gamals aldri.

Drep sem þetta eru umtalsvert algengari í öldruðum en áður var talið. Vilmundur segir allt að fimmtung fólks yfir sjötugu með hjartadrep án þess að hafa nokkra hugmynd um það. Það sé ansi hátt hlutfall.

Þegar hafa 700 manns með tilliti til þessa en nú er ætlunin að kanna fleiri, sérstaklega tengsl hjartadreps við sykursýki og æðasjúkdóma í augnbotnum. Allt miðar þetta að því að geta greint kvillana fyrr og þannig auka lífsgæði fólks á efri árum.

Vilmundur segir að menn vonist til að hægt sé að beita einhvers konar forvörnum og finna fólk í tæka tíð til þess að grípa inn í þannig að það sé hægt að koma í veg fyrir eða seinka sjúkdómum. Hjá Hjartavernd segi þau að forvarnir séu sjálfsögð mannréttindi sérhvers manns, ekki bara hinna ungu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×