Erlent

Íransforseti þegir þjóð sína ekki þurfa kjarnorkuvopn

Mahmoud Amhadinejad, Íransforseti.
Mahmoud Amhadinejad, Íransforseti. MYND/AP

Íransforseti situr fast við sinn keip og segir þjóð sína ekki þurfa á kjarnorkuvopnum að halda. Einungis þær þjóðir sem leysa vilja deilur með átökum þarfnist slíkra vopna að hans mati.

Styr hefur staðið um þá ákvörðun Írana um að rjúfa innsigli á kjarnorkurannsóknastöð sinni og hefja starfsemi þar á ný. Þeir segjast reyndar einungis þróa kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, engin áform séu um að smíða kjarnavopn úr úraninu sem unnið er í Natanz-stöðinni.

Bandaríkjamenn og helstu bandamenn þeirra á Vesturlöndum hafa engu að síður hótað að taka málið upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og beita sér fyrir því að viðskiptaþvinganir verði settar á Íran svo að landið einangrist enn frekar í alþjóðasamfélaginu.

Á fréttamannafundi í dag svaraði Mahmoud Amhadinejad, hinn herskái forseti Írans, Vesturveldunum fullum háls ásamt því að ítreka að ríkisstjórn sín hefði ekkert annað í hyggju en að framleiða rafmagn úr kjarnorkunni.

Samkvæmt sáttmála um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna er Írönum heimilt að auðga úran, þó ekki svo mikið að það megi nota í kjarnorkusprengjur. Ahmadinejads sagði tíma til kominn að ríkisstjórnir á Vesturlöndum létu af skinhelgi sinni gagnvart Írönum og færu í staðinn að treysta þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×