Sport

Tottenham og Wigan skildu jöfn

Edgar Davids og Paul Scharner í leiknum í dag.
Edgar Davids og Paul Scharner í leiknum í dag. NORDICPHOTOS/GETTY IMAGES

Tottenham og Wigan gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í dag en þetta er eini leikurinn sem fer fram í henni um helgina. Með stiginu er Tottenham komið í 46 stig, fimm stigum á eftir Liverpool sem er í þriðja sæti deildarinnar.

Wigan komst yfir snemma leiks þegar langri sendingu var flikkað áfram og sænski framherjinn Andreas Johansson skoraði gott mark en mikill rangstöðufnykur var af markinu. Mido jafnaði metin skömmu síðar með góðu marki og allt var í járnum í hálfleik.

Leikmenn Wigan fengu betri færi í síðari hálfleiknum og komust yfir með glæsilegu marki þegar Henri Camara og áðurnefndur Johansson spiluðu saman skemmtilega í þríhyrning og kláraði Svíinn færið sitt vel. Þetta kom flatt upp á leikmenn Tottenham sem tókst að jafna á ótrúlegan hátt á sömu mínútunni.

Tottenham tók miðju, sendu boltann fram þar sem Mido skallaði hann inn í teiginn og Jermaine Defoe jafnaði metin. Markið tók aðeins þrettán sekúndur en þrátt fyrir fín færi tókst leikmönnum ekki að bæta við mörkum og jafntefli því niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×