Leikarinn Daniel Baldwin, sem sjálfsagt er þekktastur fyrir að vera hvað ófríðastur Baldwin-bræðranna, liggur á spítala eftir að hafa ekið á tvo kyrrstæða bíla á 130 kílómetra hraða. Lögreglan hefur á honum gætur á sjúkrahúsinu því Baldwin á yfir höfði sér ákæru fyrir að aka undir áhrifum.
Sjónarvottar segja að Baldwin hafi ekið silfurlituðum sportbíl á ofsahraða yfir gatnamót á rauðu ljósi áður en hann klessti á tvo bíla, þar á meðal Hummer-jeppa sem færðist átta metra úr stað við áreksturinn. Farþegi var með Baldwin í bílnum en virðist hafa sloppið með minniháttar áverka. Lögreglan segist hins vegar hafa fundið kókaín á þeim báðum.
Baldwin á að baki tiltölulega óeftirminnilegan feril á hvíta tjaldinu en er frægur að endemum og var handtekinn í mars síðastliðnum fyrir fíkniefnabrot.