Félagsmálaráðherra telur konur hafa borið skarðan hlut frá borði í sveitastjórnarkosningunum í lok maí. Tveggja ára gömul jafnréttisáætlun ráðuneytisins verður tekin til endurskoðunar á næstunni.
Magnús Stefánsson, nýr félagsmálaráðherra, lagði fram minnispunkta varðandi jafnrétti á sínum fyrsta ríkisstjórnarfundi í gær. Það er einkum þrennt sem ráðuneytið ætlar að beita sér fyrir á næstunni til þess að jafnahlut kynjanna.
Magnús segir að í fyrsta lagi verði unnar upplýsingar um skiptingu kynja í sveitarstjórnum, ráðum og nefndum eftir nýafstaðnar kosningar og í öðru lagi eigi að efla upplýsingamiðlun um hlutfall kynja í opinberum störfum. Þá sé í þriðja lagi ætlunin að endurskoða jafnréttisáætlun sem samþykkt hafi verið fyrir tveimur árum.
Mörgum finnst nýafstaðnar sveitastjórnarkosningar ekki beinlínis það bensín sem þurfti á vagn jafnréttisáætlunar á Íslandi. Magnús er sammála því. Hann segir að almennt þurfi að auka hlut kvenna á sveitarstjórnarstiginu. Aðspurður hvað sé hægt að gera segir hann að fyrst og fremst verði að hvetja konur til aukinnar þátttöku í sveitarstjórnarmálum og á það þurfi að leggja mikla áherslu.