Erlent

Þingkosningar framundan í Palestínu

Þingkosningar verða haldnar í Palestínu þann 25. janúar en Ísraelar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki koma í veg fyrir að Palestínumenn, sem búsettir eru í Jerúsalem fái að taka þátt í kosningunum eins og þeir höfðu boðað áður.

Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínumanna, lýsti því yfir á blaðamannafundi á Gaza í gær, að þingkosningar verði haldnar í Palestínu 25. janúar. Abbas sagðist hafa tekið ákvörðunina eftir að hafa setið fund með Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem bar þau skilaboð til hans frá Bush Bandaríkjaforseta að Palestínumenn sem búsettir eru í Jerúsalem myndu fá að taka þátt í kosningunum óáreittir. Fljótlega eftir þau skilaboð lýstu Ísraelar því yfir að þeir myndu ekki koma í veg fyrir kosningaþátttöku en Ísraelsstjórn hafði áður hótað að meina þeim aðgang að kjörstöðum og myndu beita valdi ef þess þyrfti. En bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn segja Jerúsalem höfuðborg sína. Á fundinum hvatti Abbas jafnframt uppreisnarmenn til að halda sig frá kjörstöðum og sagðist hafa gefið sveitarstjórnarmönnum á Vesturbakkanum og á Gasasvæðinu skipun um að halda friðinn, því yrði framfylgt, jafnvel með valdi en stjórnmálaskýrendur segja þó ólíklegt að kosningarnar fari friðsamlega fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×