Innlent

Ekki þrýst á ritstjóra DV

Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri Dagsbrúnar.
Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri Dagsbrúnar. MYND/Hari

Gunnar Smári Egilsson framkvæmdastjóri Dagsbrúnar segir að ekki hafi verið þrýst á ritstjóra DV um að hætta störfum. Þeir hafi kosið að gera það sjálfir í ljósi umræðu síðustu daga. Hann kannast ekki við tilboð Björgólfs Guðmundssonar um að kaupa blaðið til að koma í veg fyrir umfjöllun um sjálfa sig. Það sé þó ótrúlegt ef mönnum detti slíkt í hug á Vesturlöndum.

Í yfirlýsingu frá stjórn Dagsbrúnar sem kom saman til fundar í morgun segir að hún virði þá ákvörðun ritstjóra DV að láta að störfum. Hinsvegar segir að stjórnarmönnum sé óheimilt að hlutast til um einstök umfjöllunarefni fjölmiðla í eigu félagsins. Gunnar Smári Egilsson segir að ekki hafi verið þrýst á ritstjórana að hætta störfum. "Enda engin ástæða til þess," segir Gunnar Smári og kveður eðlilegt að mál séu fyrst leyst innan ritstjórnar áður en stjórn félagsins taki á þeim. Í þessu tilfelli hafi ritstjórarnir ákveðið að segja upp störfum.

Nokkrir eigendur hafa látið í ljós megna andúð á blaðinu. Björgólfur Guðmundsson reyndi í tvígang að kaupa DV og leggja það niður vegna umjöllunar um hann og fjölskyldu sína. Gunnar Smári kannast ekki við þetta tilboð og segir með ólíkindum ef auðugir menn reyndu að kaupa fjölmiðil til þess eins að leggja hann niður ef þeir væru ósáttir við umfjöllun um sig.

Gunnar Smári segir hlutverk ritstjóra að móta blaðið og leggja nýjar áherslur. Hann trúi því þó að nýjum mönnum fylgi nýjir siðir. Tekið er fram í tilkynningu frá Dagsbrún að annar ritstjóranna hafi gegn trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðspurður segir Gunnar Smári þetta ekki til vitnis um pólitískar áherslur eða breytingar þar um og varar fólk við að fara í of mikla kremlarlógíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×