Innlent

Veiða án rannsókna og án stjórnar

Erlendur togari að ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg.
Erlendur togari að ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg. MYND/Landhelgisgæslan

Íslendingar eru í fyrsta skipti að halda á karfaveiðar á alþjóðlega hafsvæðinu í Síldarsmugunni. Sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun segja stórhættulegt að verið sé að veiða úr stofni sem ekkert sé vitað um, án þess að veiðunum sé stjórnað.

Íslendingar hafa aldrei veitt markvisst úr karfastofninum sem finnst í síldarsmugunni fyrr en nú en það hafa meðal annars Færeyingar gert. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasviðs hjá Hafrannsóknarstofnuninni, segir að ekki sé vitað hvaðan karfinn í síldarsmugunni kemur, hvort hann kemur úr stofninum sem Íslendingar veiða á Reykjaneshrygg, norska stofninum í Barentshafi eða hvort þetta er algjörlega stakur stofn sem ekki hefur verið kannaður.

Þau skip sem nú eru að veiðum í síldarsmugunni munu safna rannsóknarsýnum til þess að hægt sé að komast að því hvaða stofni karfinn tilheyrir. Hafrannsóknastofnun varaði sérstaklega við því í vor að ástand úthafskarfastofnsins á Reykjaneshrygg sé með versta móti og að grípa þyrfti til róttækrar veiðistjórnunar ef ætti að kippa því í liðinn.

Þorsteinn bendir á að það sé ávallt góð regla að rannsaka fyrst og veiða svo, hvaðan sem fiskurinn kemur. Ef þetta er stakur stofn í Síldarsmugunni er auðvelt að skaða hann með því að byrja allt í einu að veiða hann á fullu og eftirlitslaust. Ef um er að ræða stofninn sem Íslendingar og aðrir hafa veitt á Reykjaneshrygg eða norska stofninn í Barentshafinu séu þeim mun meiri ástæða til að fara varlega, því að báðir stofnarnir séu í besta fallir fullnýttir og jafnvel ofnýttir.

Hann bendir einnig á hættuna af sjóræningjaveiðum, sem erfitt sé að berjast gegn þar sem svæðið sé alþjóðlegt hafsvæði. Þeir togarar sem hafi verið að veiðum á Reykjaneshryggnum í óþökk Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins geti farið í Síldarsmuguna án þess að vera þar í óþökk neins því þarna sé engin virk fiskveiðistjórnun á karfa að því er hann best viti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×