Lífið

Sævar Karl ósáttur við Tekinn

Sævar karl  Kveðst ekki vera sár út í Auðunn. „Þetta er hvort eð er búið og gert.“
Sævar karl Kveðst ekki vera sár út í Auðunn. „Þetta er hvort eð er búið og gert.“

„Þetta er ekki minn stíll. Sigurður Kári myndi aldrei fá svona móttökur hér og ég hálfskammast mín fyrir þetta," segir Sævar Karl Ólason kaupmaður um sjónvarpsþáttinn Tekinn, sem sýndur var á Sirkus á mánudagskvöld.

Í þættinum var Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður boðaður í herrafataverslun Sævars Karls í Bankastræti til að gera kjarakaup. Það runnu hins vegar tvær grímur á þingmanninn þegar hann sat uppi með himinháan reikning og ekki bætti úr skák að „afgreiðslukonan" var hinn dónalegasta.

Þegar Sigurður var við það að storma út í fússi birtist Auðunn Blöndal, umsjónarmaður þáttarins, og gerði gott úr öllu saman.

Sævar Karl segir að þótt mörgum finnist hrekkurinn eflaust fyndinn hafi hann ekki fallið í kramið hjá sér. „Auðunn er grallari og tekur upp á ýmsu. Ég er líka grallari en mitt grín er öðruvísi. Sjálfum fannst mér verið að niðurlægja Sigurð Kára, sem við myndum aldrei gera, hvorki við hann né aðra. Við reynum að veita öllum persónulega þjónustu, enda kemur hingað fólk úr öllum stéttum." Sævar segist óttast að uppátækið eigi eftir að skaða sig frekar en hitt, en er þó ekki ósáttur við Auðunn. „Þetta er hvort eð er búið og gert."

Sjálfur kveðst Auðunn hafa útskýrt hrekkinn fyrir Sævari. „Hann virtist bara taka þessu sem góðu gríni og eftir þáttinn voru allir sáttir. Sigurður kom líka vel út úr þessu," segir hann og telur ástæðulaust fyrir Sævar að hafa áhyggjur. „Ég held að allir viti að svona er búðin ekki." 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.