Innlent

Björgúlfur vildi hætta útgáfu DV skömmu fyrir jól

MYND/gva

Mikil umræða hefur spunnist um fréttaflutning DV síðasta sólarhring eftir að maður á Ísafirði svipti sig lífi, í kjölfar myndbirtingar og ásakana á hendur honum í blaðinu. Hörð gagnrýni á DV er þó ekki ný af nálinni, þótt sviptingarnar hafi ekki alltaf komist upp á yfirborðið. Blaðið er hluti fjölmiðlasamsteypunnar 365, eins og Fréttablaðið, Stöð 2 og NFS. Allt er þetta í eigu móðurfélagsins Dagsbrúnar, þar sem Baugur ræður mestu, en Landsbankinn á líka lítinn hlut í Dagsbrún.

Skömmu fyrir jól setti Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, sig í samband við flesta aðal- og varamenn í stjórn Dagsbrúnar, þegar honum ofbuðu, það sem hann leit á sem svæsnar innrásir DV, í einkalíf sitt og fjölskyldu sinnar. Þetta voru meðal annars fréttir DV af Þóru, eiginkonu Björgólfs og fyrra hjónaband hennar í Ameríku, soninn Björgólf og nýfætt afabarnið.

Undir hendinni hafðu hann möppu með úrklippum DV, máli sínu til stuðnings. Tilgangur Björgólfs var meðal annars að kanna hvort vilji væri meðal annarra eigenda Dagsbrúnar, til að hætta útgáfu DV og ef menn vildu ekki slá blaðið af að skipta í það minnsta um ritstjóra.

Björgólfur skrifaði auk þess bréf til Þórdísar J. Sigurðardóttur, stjórnarformanns Dagsbrúnar, þar sem hann óskaði skriflega svars við því, hvort hún teldi blaðamennsku af því tagi sem DV stundar væri stjórn fyrirtækisins þóknanlegar.

 



Björgólfur fundar með Jóni Ásgeiri

Björgólfur gekk einnig á fund Jóns Ásgeirs Jóhannessonar forstjóra Baugs í sömu erindagjörðum. Þeim Björgólfi og Jóni Ásgeiri mun báðum hafa hitnað verulega í hamsi á fundinum.

Björgólfur fékk þau svör, eftir því sem næst verður komist, að hvorki Baugur né Jón Ásgeir skipti sér nokkuð að rekstri Dagsbrúnar, enda sé það hlutafélag skráð á markaði.

Verulega mun þó hafa hitnað undir ritstjórum DV um tíma, þeim Jónasi Kristjánssyni og Mikaeli Torfasyni, enda allt vitlaust á æðstu stöðum eins og einn viðmælandi fréttastofu orðaði það.

Ekki náðist í Jón Ásgeir vegna þessa, en hann tók samkvæmt heimildum fréttastofu ekki í mál að skipta Gunnari Smára Egilssyni, þá forstjóra 365 miðla, eins og Björgúlfur gerði kröfu um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×