Innlent

Arnaldur Indriðason á útlánamet bókasafnanna síðasta ár

MYND/Ralf Baumgarten

Landskerfi bókasafna hefur tekið saman lista yfir þær bækur sem mest voru lánaðar út í bókasafnskerfinu Gegni á síðastliðnu ári. Í ljós kom að Arnaldur Indriðason á 7 útlánahæstu titlunum í flokki íslenskra skáldsagna. Í flokki barnabóka er Fíasól í fínum málum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur hæst, í flokki rita almenns efnis Fuglarnir okkar eftir Stefán Aðalsteinsson og Grétar Eiríksson og vinsælasta tímaritið er Andrés önd.

Þegar teknar voru saman tölur yfir skiptingu útlána eftir bókasöfnum reyndust þau hafa verið flest hjá Borgarbókasafninu í Reykjavík, Bókasafni Hafnarfjarðar, Bókasafni Kópavogs, Landsbókasafninu og Bókasafni Mosfellsbæjar.

Notkunin á Gegni eykst jafnt og þétt. Á árinu 2005 voru um 180 bókasöfn og útibú með kerfið í notkun, útlán á árinu voru 2,5 milljónir sem er aukning um eina milljón frá fyrra ári og eintakafjöldi við árslok var 3,3 milljónir. Flettingar á vefnum gegnir.is voru rúmlega 18.000 á dag að meðaltali frá því samræmd mæling hófst í september 2005 til ársloka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×