Innlent

Úrskurður um athugun á reikningum ógnar trúnaðarsambandi

Formaður Lögmannafélagsins telur það ógna trúnaðarsambandi lögmanna og skjólstæðinga þeirra, að Fjármálaeftirlitið skuli með dómsúrskurði geta skoðað vörslureikninga lögmanna. Stjórn Lögmannafélagsins ætlar að fjalla um málið á fundi í dag.

Tildrögin eru þau að við rannsókn Fjármálaeftirlitisins á stofnfjárkaupum ýmissa fjárfesta i Sparisjóði Hafnarfjarðar í fyrra fékk eftirlitið úrskurð Hérðasdóms Reykjavíkur um að það gæti fengið ljósrit af öllum gögnum í Landsbankanum, sem vörðuðu hreyfingar á bankareikningum tiltekinnar lögmannsstofu, sem tengdist stofnfjárkaupunum.

Úrskurðurinn fékkst í nóvemberlok í fyrra. Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélagsins, segir að þetta sé einsdæmi og sér sýnist þetta skarast á við trúnaðarsamband lögmanns og skjólstæðings hans. Lögmönnum sé skylt að halda vörslureikninga vegna skjólstæðinganna, en öll samskipti þeirra eigi að vera trúnaðarmál, og þar með peningar sem fara þeirra á milli. Mikilvægt sé að endurmeta þessa stöðu í ljósi atburðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×