Lífið

Nýtt tónlistarhús spillir fyrir stórtónleikum

Menningarnótt Tónleikarnir á miðbakkanum hafa verið einn af hápunktum menningarnætur.
Menningarnótt Tónleikarnir á miðbakkanum hafa verið einn af hápunktum menningarnætur.

Engir stórtónleikar verða á miðbakka Reykjavíkurhafnar á menningarnótt, líkt og þrjú undanfarin ár, þar sem framkvæmdir vegna nýs tónlistarhús eru hafnar. Rás 2 hefur haft veg og vanda af tónleikunum og hafa þeir verið einn af hápunktum menningarnætur ásamt flugeldasýningunni.

Tónleikarnir hafa alltaf verið gríðarlega stór viðburður og þar hefur safnast saman mikill fjöldi fólks á litlu svæði. Þar sem uppgröftur er hafinn á svæðinu var talið óráðlegt að stefna fólki á þennan stað þar sem það getur meitt sig, segir Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.

Sif segir það vissulega leiðinlegt að tónleikarnir verði ekki haldnir í ár. Hún bendir þó á að menningarnótt hafi verið haldin í sjö ár áður en tónleikarnir urðu hluti af dagskrá hennar.

Það er ekki efasemd í brjósti mínu að fólk finni sér ekki eitthvað annað við hæfi. Það verður fullt af alls konar óvenjulegum og skemmtilegum atriðum á hátíðinni.

Sif segir það alls óvíst hvort tónleikarnir verði haldnir á næsta ári enda verður miðbakkinn lagður undir framkvæmdir næstu ár.

Það er enginn staður sem blasir við en það er engri loku fyrir það skotið að tónleikarnir verði haldnir annars staðar, segir Sif sem er þó bjartsýn á framhaldið. Kannski kemur eitthvað allt annað og öðruvísi í staðinn fyrir tónleikana sem þó uppfyllir þetta tómarúm sem verður. Það er hægt að gera svo marga skemmtilega hluti.

Á tónleikunum á menningarnótt hafa allar helstu hljómsveitir landsins komið fram, þar á meðal Stuðmenn, Sálin hans Jóns míns, Bubbi, Lögreglukórinn og Quarashi heitin svo einhverjar séu nefndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.