Lífið

Lengsta sjónvarpsauglýsing Íslandssögunnar frumsýnd

Lengsta sjónvarpsauglýsing Íslands­sögunnar verður brátt tekin til sýningar. Auglýsingin, sem er þrjár mínútur, var gerð fyrir veitingastaðinn Café Oliver.

"Auglýsingin er ansi löng, meira að segja lengri en auglýsingin frá Orkuveitunni," segir Arnar Þór Gíslason, veitingamaður á Café Oliver. Auglýsing Orkuveitunnar vakti mikla athygli þegar hún var sýnd enda um ein og hálf mínúta að lengd. Nú gerir Café Oliver betur.

Auglýsingin var tekin upp á sveitabæ fyrir austan fjall og fjallar ekki að nokkru leyti um veitingastaðinn heldur um danskættaðan bónda sem heitir Óliver og hið grátbroslega líf sem hann lifir.

Auglýsingin verður brátt tekin til sýningar í íslensku sjónvarpi auk þess sem hún verður sýnd í hálft ár hið minnsta um borð í vélum Icelandair. "Við gerðum auglýsinguna bæði á íslensku og ensku. Í ensku útgáfunni fylgir íslenskur texti með," segir Arnar Þór.

Bóndann Óliver leikur listaspíran Aron Bergmann, en hann hefur áður tekið að sér hlutverk fyrir Café Oliver og er að einhverju leyti orðinn andlit fyrirtækisins.

Kvikmyndafyrirtækið Föðurlandið sá um framleiðslu auglýsingarinnar en leikstjórar voru Arnór Fells og Örvar Þór Sigurðsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.