Innlent

Færeyskir dagar vel sóttir

Útilega Búast má við að landsmenn verði á faraldsfæti um helgina. Reiknað er með um sex þúsund gestum á færeyska daga í Ólafsvík.
Útilega Búast má við að landsmenn verði á faraldsfæti um helgina. Reiknað er með um sex þúsund gestum á færeyska daga í Ólafsvík. MYND/Teitur

Að sögn Þóris Rúnars Geirssonar, varðstjóra lögreglunnar á Snæfellsnesi, búast menn við rúmlega sex þúsund gestum á færeyska daga í Ólafsvík. Í fyrra heimsóttu á bilinu fimm til sex þúsund manns hátíðina.

Umferðin til Ólafsvíkur fór að þyngjast um áttaleytið í gærkvöldi og var lögregla búin að auka eftirlit sitt. Við erum búnir að setja um vegatálma þar sem flestir eru stoppaðir og beðnir um að framvísa ökuréttindum. Við tökum hart á því ef við verðum varir við að krakkar eru að nota áfengi og tökum áfengið af þeim, segir Þórir Rúnar.

Hvað varðar sérstakar ráðstafanir lögreglu í Ólafsvík meðan á hátíðinni stendur vegna unglingadrykkju, segir Þórir Rúnar að almennt eftirlit verði á svæðinu og björgunarsveitin verði lögreglunni innan handar á svæðinu. Við erum í góðu samstarfi við björgunarsveitina og þeir liðsinna okkur vel ef það eru krakkar undir áhrifum áfengis. Þeir skjóta yfir þau skjólshúsi og hafa samband við foreldra, segir Þórir Rúnar.

Yngvi Þórir Eysteinsson, dagskrárgerðarmaður á Flass FM, segir unga fólkið hafa tekið stefnuna á færeyska daga í Ólafsvík. Já það er grenilegt að færeysku dagarnir um helgina trekkja unga fólkið að, ég hef nánast bara heyrt að fólk ætli þangað, segir Yngvi Þórir.

Auk færeysku daganna má búast við að fólk fjölmenni á hestamótið á Vindheimamelum, en Þórsmörk er einnig vinsæll áfangastaður um þessa helgi. Þá er haldin útivistarhátíð háskólanema í Hallgeirsey um helgina. -




Fleiri fréttir

Sjá meira


×