Lífið

McCartney brjálaður út í Mills

Allt brjálað Paul McCartney ætlar að beita sér af fullum krafti gegn ásökunum fyrrverandi eiginkonu sinnar, Heather Mills.
Allt brjálað Paul McCartney ætlar að beita sér af fullum krafti gegn ásökunum fyrrverandi eiginkonu sinnar, Heather Mills. MYND/Getty

Paul McCartney er brjálaður út í fyrrverandi eiginkonu sína, Heather Mills, vegna ásakana um að hann hafi beitt hana ofbeldi meðan á hjónabandi þeirra stóð. Dómskjölum var lekið í fjölmiðla en þar kom fram að Mills ætlar að bera vitni um að McCartney hafi lamið hana, neytt áfengis og ólöglegra lyfja.

Breska blaðið The Daily Mail komst fyrst yfir þrettán síðna lýsingu á hjónabandinu sem lögð verður fram við réttarhöldin en áætlað er að þau hefjist í byrjun næsta árs. Lögfræðingastóð bítilsins fyrrverandi birti í gær yfirlýsingu vegna málsins og þar kom fram að McCartney ætli sér ekki að tjá sig persónulega um málið en hann hygðist jafnframt ætla beita sér af fullum krafti gegn þessum röngu ásökunum.

Payne Hicks Beach, lögfræðingur McCartneys, sagði að skjólstæðingur sinn væri miður sín en bætti því við að hann vonaði að málið myndi fara í réttan farveg og yrði haldið frá kastljósi fjölmiðlanna.

Ekki eingöngu eðli málsins vegna heldur einnig vegna barnanna en þetta er fyrst og fremst einkamál þeirra tveggja, sagði Beach við fjölmiðla í gær.

Heather Mills vildi ekki tjá sig um málið þegar fjölmiðlar höfðu upp á henni við upptökur á sjónvarpsþætti fyrir BBC.

Lögfræðingateymi hennar hjá Mischon de Reya vildi heldur ekki segja neitt um hvort upplýsingum hefði verið vísvitandi lekið til fjölmiðla og vonuðust þeir til að þeir myndu láta af umfjöllun sinni um þetta viðkvæma mál. Engu að síður hefur breska slúðurpressan farið hamförum í fréttaflutningi sínum af skilnaðinum sem gæti orðið sá dýrasti í sögu Bretlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.