Lífið

Búlluveldið stækkar enn

Hamborgarakóngur Tommi á hamborgarabúllunni breiðir úr sér. Í júlí bætist grísasamloka á matseðilinn.
Hamborgarakóngur Tommi á hamborgarabúllunni breiðir úr sér. Í júlí bætist grísasamloka á matseðilinn.

Hamborgarakóngurinn Tómas Tómasson hefur opnað enn eina hamborgarabúlluna. Fyrir rekur Tommi hamborgarastaði við Geirsgötu, á Egilsstöðum og í Hafnarfirði, sem allir eru undir heitinu Hamborgarabúlla Tómasar.

Fjórða hamborgarabúllan og jafnframt sú nýjasta er til húsa við hliðina á Húsgagnahöllinni við Bíldshöfða. Staðurinn tekur um fimmtíu manns í sæti og er því stærsti hamborgarastaðurinn í hinni sístækkandi keðju Tomma. Eins og hinir staðirnir er hann samtíningur af hinu og þessu. Þannig eru húsgögn staðarins meðal annars úr Góða hirðinum.

"Frægasti básinn af gamla Hard Rock, bás 301, er líka á staðnum sem er stórt og mikið átta manna borð sem var mjög vinsælt meðal lítilla vinahópa," segir Tommi og bætir við að það að nýta það sem til er gefi staðnum heimilislegt yfirbragð. Á staðnum er líka krakkahorn með flatskjá fyrir teiknimyndir og gestir staðarins þurfa ekki að láta sér leiðast á meðan beðið er eftir matnum því hægt er að dunda sér við það að teikna listaverk sem prýða munu loft staðarins.

Akureyringurinn Óðinn Geirsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri nýja staðarins, en hann er lærður bakari.

Í júlí hyggur Tommi á breytingar á matseðli búllanna en þá bætist gamla góða grísasamlokan af Hardrock á seðilinn, en hún er samsett úr grísastrimlum í barbeque sósu sem settir eru í hamborgarabrauð ásamt hrásalati. Aðspurður um það hvort fleiri búllur séu væntanlegar svarar Tommi hlæjandi: "Það er bara heimsyfirráð eða dauði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×