Innlent

Þyrluæfing skaðar æðarvarp

Lýður Jónsson, sem annast hefur æðarvarpið í Engey í nokkur ár, segir æðarvarpið í molum eftir æfingu Slysavarnaskólans nú fyrir helgi.

Lýður varð vitni að æfingunni og segir þyrluna hafa sveimað um eyjuna í einhvern tíma áður en hún lenti. "Þetta fælir kolluna frá hreiðrunum og vargurinn kemst óáreittur í eggin og hann lætur ekki bjóða sér það tvisvar," segir Lýður. Hann segir varpið í eyjunni í sumar hafa lofað góðu, en nú blasi við hrun.

Að sögn Ólafs K. Nielsen, fuglafræðings hjá Náttúruverndarstofnun, er æðarvarp mjög viðkvæmt fyrir allri umferð. Hann segir landeigendur þurfa að friðlýsa vörpum til að koma í veg fyrir umferð en þó séu óskrifaðar reglur um umgengni við æðavörp og það að lenda þyrlu í námunda við æðarvarp sé út í hött. Til dæmis er stór hluti Viðeyjar lokaður fyrir gangandi umferð gesta yfir varptímann. "Það er til dæmis bannað við fuglavörp að þeyta skipslúðra, svo viðkvæmt er varpið," segir Ólafur.

Ólafur fordæmir atvikið, sér í lagi vegna þess að æðarvarpið sé í hámarki um þessar mundir. Æðarfuglinn verpi í fyrri hluta maí við Faxaflóann og sé nú að klekja. Hann segir jafnframt þetta atvik geta haft áhrif á varpið næsta sumar. "Það er vitað af fyrri reynslu þar sem að æðarkollan hefur orðið fyrir mikilli truflun, hún fer að skynja ákveðið óöryggi og hagar sér samkvæmt því og leitar að ári í önnur vörp", segir Ólafur.

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskólans, segir að í æfingum sem þessari sé yfirleitt notast við minni þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Henni þarf ekki að lenda við æfingarnar en vegna bilunar sem kom upp hafi þurft að nota þá stærri, TF-LÍF, sem þarf að lenda til að ljúka æfingunni.

Hann segir að í þeim tilfellum sem stærri þyrlan sé notuð reyni flugmenn gæslunnar eftir fremsta megni að lenda þyrlunni þar sem hún valdi hvað minnstu raski. Hann telur að um eitt og hálft ár sé síðan stærri þyrlan hafi lent í Engey við æfingar af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×