Lífið

Alice Cooper fékk hlýjar móttökur

Vincent Damon Furnier kom til landsins í gærkvöldi. Vincent er betur þekktur sem myrkraprinsinn Alice Cooper en hann heldur tónleika í Kaplakrika í kvöld. Kappinn lék á als oddi í Leifsstöð í gær þar sem hann fékk ótrúlegar móttökur. Guðfaðir rokksins var nýkominn úr golfmóti þegar hann lenti á Keflavíkurflugvelli í gær og var hann töluvert ólíkur þeim Alice Cooper sem aðdáendur hans eru vanir að sjá. Um það bil 100 bifhjólamenn voru mættir til þess að taka á móti Cooper og var hann hæst ánægður með móttökurnar. Hann gaf sér nægan tíma í myndatökur og eiginhandaráritanir í Leifsstöð áður en hann hélt áleiðis til Reykjavíkur en bifhjólafylkingin fylgdi honum á hótel hans í Reykjavík. Honum var kalt við komuna til landsins og spurði bifhjólamenn hvort það væri sumar á Íslandi. Hann lét þó kuldann ekki aftra sér og var mættur á teig klukkan átta í morgun í Grafarholtinu þar sem hann lék golfhring með hljómsveit sinni og nokkrum íslenskum kylfingum. Búist er við fjölmenni á tónleikum hans í kvöld en Cooper er þekktur fyrir frábæra sviðsframkomu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.