Erlent

Aurskriður ekki eina vandamálið

Minnst 66 manns hafa þegar látist af völdum fellibylsins Stans sem hefur nú náð landi í Mexíkó. Verst er ástandið í El Salvador þar sem fimmtíu manns hafa farist af völdum mikilla aurskriða. Íslendingur sem hefst við í höfuðborg landsins segir vatn og aurskriður þó ekki einu hættuna sem fátækum íbúum landsins sé búinn þessa dagana. Í El Salvador hefur neyðarástandi verið lýst yfir og forseti landsins segir mikla hættu á frekari aurskriðum um allt land vegna rigninga. Í höfuðborginni San Salvador er ástandið slæmt að sögn Jóns Þórs Ólafssonar rafmagnsverkfræðings sem er við vinnu í nágrenni höfuðborgarinnar þar sem fyrirtæki hans er að reisa jarðorkuver í samstarfi við heimamenn. Jón Þór segir miklar rigningar og flóð þeim samfara ekki einu hamfarirnar sem íbúum í nágrenni San Salvador stafar hætta af. Eldfjall í nágrenninu hafi líka látið á sér kræla og jafnvel sé búist við að fjallið gjósi á allra næstunni. Jón Þór segir að ekki væsi um sig enda sé hann í einu af betri hverfum borgarinnar. Öðru máli gegnir þó um fjöldann allan af fátækum íbúum borgarinnar sem eru í bráðri hættu vegna vatnselgs og nú hugsanlegs eldgoss.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×