Erlent

Innganga Tyrklands ekki tryggð

Ráðamenn Evrópusambandsins vöruðu við því í gær að þótt sögulegum -áfanga væri náð með hinum nýhöfnu aðildarviðræðum við Tyrki væri engin trygging fyrir því að þeim lyktaði með inngöngu Tyrklands í sambandið. Það yrði ekki síst undir því komið hvort ESB yrði sjálft búið að gera þær breytingar í eigin ranni sem nauðsynlegar væru til að það geti tekið inn í sínar raðir sjötíu milljón manna ríki með landamæri að löndum eins og Íran, Írak og Sýrlandi. Þótt aðildarviðræðurnar hefðu formlega verið hafnar á fundi utan-ríkisráðherra ESB-ríkjanna 25 og Tyrklands í Lúxemborg í fyrrinótt er ekki gert ráð fyrir að eiginlegar viðræður hefjist fyrr en að ári eða svo. Nú tekur við matsferli þar sem samdar verða skýrslur um það að hve miklu leyti tyrknesk löggjöf og stjórnarhættir samræmast stöðlum Evrópusambandsins, þá verður skoðað í hvaða málaflokkum Tyrkir eru næst því að uppfylla aðildarkröfurnar. Alls er viðræðunum skipt niður í 35 málefna-kafla. Í einhverjum þeirra kafla þar sem styst er í land verða fyrstu eiginlegu aðildarviðræðurnar hafnar. Á undanförnum árum hafa tyrknesk stjórnvöld lagt sig fram um að hrinda í framkvæmd umbótum sem dygðu til að uppfylla lágmarkskröfur til að hefja viðræður. Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB í framkvæmdastjórn sambandsins, sagði viðræðurnar geta tekið tíu til fimmtán ár. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands sem gegnir ESB-formennskunni þetta misserið, sagði viðræðurnar munu krefjast „mikilla breytinga" bæði af hálfu Tyrklands og ESB. „Það verður tekist á um þetta mál um ókomin ár," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×