Innlent

Banaslys á Suðurlandsvegi

Banaslys varð á Suðurlandsvegi á sjöunda tímanum í morgun þegar fólksbíll og jeppi rákust harkalega saman. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var annar bíllinn á leið austur eftir Suðurlandsvegi og hinn í vestur. Svo virðist sem ökumaður annars bílsins hafi misst stjórn á honum í mikilli hálku í beygjunni við Þrengslaafleggjara og ekið í veg fyrir hinn. Tíu manns voru í bílunum, fimm í hvorum bíl. Einn lést og hinir níu slösuðust, þar af þrír alvarlega. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd á staðinn og flaug með fjóra hinna slösuðu á slysadeild í Reykjavík en hinir voru fluttir með sjúkrabílum. Þrír eru á gæsludeild og er líðan þeirra stöðug en þrír eru á gjörgæsludeild, einn í eftirliti og tveir í öndunarvél og er annar þeirra búinn að fara í aðgerð að sögn vakthafandi læknis. Þrír fengu að fara heim að skoðun lokinni. Nafn hins látna verður ekki gefið upp að svo stöddu. Þetta er þriðja banaslysið í umferðinni á fimm dögum en eldri kona lést þegar ekið var á hana í miðbæ Reykjavíkur á miðvikudag og tvítugur maður lést í fyrradag þegar tveir bílar skullu saman á blindhæð skammt frá Kópaskeri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×