Sport

Sigþór aftur í Val

Knattspyrnumaðurinn Sigþór Júlíusson hefur gert munnlegt samkomulag við Valsmenn um að spila með þeim næstu tvö árin. Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í gær og sagði að það yrði skrifað undir samninginn við Sigþór á morgun, mánudag. Sigþór, sem hefur leikið með KR-ingum síðan árið 1997, spilaði ekki einn einasta leik með KR-ingum á síðasta tímabili vegna meiðsla á hné en er á góðri leið með að ná fullum styrk á nýjan leik. Sigþór sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann hefði spilað sextán leiki með háskólaliði sínu í Bandaríkjunum síðastliðið haust og þótt hann væri enn í endurhæfingu hefði hann ekki trú á því að meiðslin myndu koma til með að há honum næsta sumar. Aðspurður um ástæðu þess að hann valdi Val sagði hann félagið einfaldlega hafa sýnt mestan áhuga. "Þeir vildu ólmir fá mig á meðan mér fannst lítill áhugi vera fyrir hendi hjá KR-ingum," sagði Sigþór sem lék með Valsmönnum tímabilin 1995 og 1996. Hann hefur spilað 144 leiki í efstu deild með KA, Val og KR og skoraði þeim tólf mörk. Sigþór, sem verður þrítugur á þessu ári, á að baki tvo A-landsleiki. Hann er fimmti leikmaðurinn sem gengur í raðir Valsmanna frá því að tímabili lauk í haust en áður höfðu þeir Atli Sveinn Þórarinsson, Guðmundur Benediktsson, Kjartan Sturluson og Steinþór Gíslason skrifað undir samning við Hlíðarendaliðið auk þess sem nýr þjálfari, Willum Þór Þórsson, stýrir liðinu á komandi tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×