Innlent

Útlit fyrir metár í laxveiði

Flest bendir til þess að laxveiðin í ár nemi um það bil 55 þúsund löxum, sem er rösklega tvö þúsund löxum meira en metárið 1978. Þessi niðurstaða er byggð á bráðabirgðatölum og spá Orra Vigfússonar, sem hann birtir í Morgunblaðinu, en spár hans undanfarin ár hafa staðist með nokkur hundruð laxa frávikum. Það er því ljóst að sumarið í sumar var metsumar í stangveiði á laxi hér á landi. Viðmælendur fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar benda á að náttúrulegar sveiflur séu í laxveiðinni eins og á veiðum á öðrum villtum fiskum, fuglum og jafnvel spendýrum. Hins vegar sé uppsveiflan mjög mikil núna. Ef litið er aftur um fimm ár til ársins 2000 hefur veiðin í Norðrurá til dæmis næstum tvöfaldast og meira en þrefaldast í Þverá og Kjarrá. Heildarveiði það ár var rúmlega 27 þúsund laxar en 55 þúsund í ár, sem fyrr segir. Síðan fór veiðin vaxandi í flest öllum ám og verulegt stökk varð svo í fyrra og aftur núna. Almennt telja menn, sem vel þekkja til, að saman fari mikil seiðaframleiðsla í ánum og gott ástand í hafinu. Þessu til stuðnings benda menn á hlýnandi sjó og hækkandi lofthita, en þær aðstæður skýra þó ekki toppinn frá 1978, fyrir 27 árum. Þá vekur athygli að veiðin í Haffjarðará, svo dæmi sé tekið, hefur tvöfaldast á fimm árum þrátt fyrir að veiðitíminn í ánni hafi verið styttur og dregið úr veiðiálagi yfir veiðitímann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×