Innlent

Dýrahræjum hent á almannafæri

"Það er eins og einhver sé að færa fórnir hérna að næturlagi," segir Einar Pálmi Árnason. Hann hefur ítrekað komið að dýrahræjum og innyflum á opnu svæði nærri Réttarholtsskóla að undanförnu. Nú síðast fann hann rolluhræ sem skilið hafði verið eftir á svæðinu. Einar Pálmi gerði lögreglu viðvart og hún fékk starfsmenn borgarinnar til að fjarlægja hræið. "Þetta er í fjórða skiptið sem ég verð var við svona lagað hérna og ég skil ekki hvað fólki gengur til með þessu," segir Einar Pálmi. Í síðasta mánuði var meindýraeyðir kallaður til í þennan sama garð til að fjarlægja hræ og matarleifar. Honum virtist sem einhver vildi fæða hrafna sem voru þarna. Gunnar Arnar Guðmundssonar, héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarumdæmis, segir að ekki sé mikil hætta á að sýking berist til manna af rolluhræjum. Hann telur nær öruggt að hræ sem þetta sé hvorki komið frá sláturhúsum né sorpeyðingarstöðvum. Að sögn lögreglu er mjög sjaldgæft að svona mál komi upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×