Erlent

Tíu ár frá sarínárás í Tókýó

Japanar minnast þess í dag að tíu ár eru liðin frá einhverri stærstu hryðjuverkaárás sem gerð hefur verið í landinu þegar meðlimir ofsatrúarreglu dreifðu taugagasi í lestarvögnum í Tókýóborg. Trúarreglan starfar enn. Á þessum degi fyrir tíu árum, á háannatíma að morgni til, fóru meðlimir í ofsatrúarreglunni Aum Shinri Kyo í fimm lestarvagna með taugagasið sarín í plastpokum. Þeir stungu gat á pokana með sérstaklega brýndum regnhlífaoddum og leyfðu gasinu að breiðast rólega út. Saríngas er um fimm hundruð sinnum banvænna en blásýra. Það lamar vöðva og lítill dropi getur drepið mann á nokkrum mínútum. Saddam Hussein notaði sarín og sinnepsgasblöndu í árásinni á kúrdíska þorpið Halabja árið 1988 þegar um fimm þúsund manns létu lífið. Það var hins vegar lán í óláni að sarínblandan sem japanski hópurinn notaði var ekki sterkasta tegund og að auki dreifðist hún ekki vel um lestarvagnana. Þrátt fyrir það létust tólf og 5500 manns veiktust. Japanar minntust árásarinnar í dag með bænahaldi og þagnarstundum í jarðlestarstöðvum borgarinnar. Shoko Asahara, leiðtogi trúarreglunnar, var dæmdur til dauða fyrir þessa og fleiri árásir ásamt tólf öðrum meðlimum en allir hafa áfrýjað dómnum og sitja enn í fangelsi. Trúarreglan skipti um nafn og heitir nú Aleph og er enn að störfum. Meðlimir hennar, tæplega tvö þúsund manns, segjast hins vegar hafa afneitað hryðjuverkum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×