Innlent

Ísland opnasta land í Evrópu

Rauði krossinn gerir ekki miklar athugasemdir við hvernig flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna er framfylgt hér á landi og segir Ísland eitt opnasta land Evrópu. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli sagði, í fréttum Stöðvar 2 í gær, að langflestir hælisleitenda komi hingað til að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Þórir Guðmundsson, hjá Rauða krossinum, telur Ísland vera eitt opnasta land Evrópu en er hann sammála þeirri misnotkun sem sýslumaðurinn talar um. Þórir segir að vafalaust séu einhverjir flóttamenn sem hingað komi að misnota samninginn. En á sama tíma séu aðrir svo sannarlega að flýja ofsóknir í heimalandi sínu. Hælisleitendur mótmæltu á dögunum hversu langan tíma meðferð þeirra mála tæki hjá stjórnvöldum. Þórir segir eðlilegt að tíma taki að kanna vel stöðu þeirra sem sækja um hæli. Það sé nauðsynlegt, svo þeir sem rétt hafa á að fá stöðu flóttamanns og þurfi vernd Íslenskra stjórnvalda, séu ekki sendir á brott. En er ekki hætt við því að fólk sem á um sárt að binda, þó það flokkist ekki sem flóttamenn, hafi ekki kost á því að sækja um dvalarleyfi hér vegna vankunnáttu og sæki um hæli þess í stað. Þórir segir að hvert land hafi rétt á því að setja reglur um hverjir komi til landsins og að það sé ekkert óeðlilegt við það. Þeir sem uppfylla ekki þau skilyrði sem íslensk stjórnvöld setja og sem flóttamannasamningurinn setur eiga ekki rétt á að vera hérna. Þórir segir enn fremur að bæta þurfi úr stöðu þeirra sem bíða hér á landi og að þar þurfi stjórnvöld, Rauði krossinn og fleiri að gera betur. Þannig þurfi að athuga vel hvað hægt sé að gera til að stytta fólkinu stundir. Frá árinu 1997 hafa ríflega 400 beðið um hæli hér. Aðeins einn hefur fengið hæli og var það fyrir um áratug síðan. Þó er ekki öllum vísað úr landi þar sem hluti fær hér dvalaleyfi af mannúðarástæðum þó þeir teljist ekki flóttamenn. Síðustu tvö ár hafa ellefu fengið slík dvalarleyfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×