Sport

Íslendingar verðlauna Shearer

Íslenski stuðningsmannaklúbbur enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle Utd komst í fréttirnar í Newcastle borg í dag. Þá greindi Newcastle Evening Chronicle frá verðlaunum sem klúbburinn afhenti Alan Shearer sem leikmaður ársins 2004 fyrir sigurleikinn gegn Liverpool um helgina. Shearer tók við verðlaununun úr hendi Hafsteins Þórðarsonar úr Newcastle klúbbnum úti á vellinum skömmu fyrir leik. Shearer háði að þessu sinni mikla og harða baráttu við hinn brottrekna Craig Bellamy sem nú er farinn til Glasgow Celtic en seig reyndar vel fram úr á lokasprettinum. Þriðji varð Jermaine Jenas og Shay Given varð fjórði. Kosið var um leikmann ársins og mark ársins á Netinu og á leikjum í Ölveri. Darren Ambrose þótti eiga besta mark ársins. Það skoraði hann í 1-2 tapleik gegn Bolton 31. október. Mark Ambrose hafði mikla yfirburði í kjörinu en mark Shearer gegn Chelsea á heimavelli kom næst. Júlíus H. Ólafsson vefstjóri Newcastle klúbbsins sagði í samtali við Vísi.is nú í kvöld að þetta sé annað árið sem klúbburinn veitir slíkar viðurkenningar. "Alan Shearer hefur verið valinn leikmaður ársins 2004 og 2005. Þetta á við ár en ekki tímabil. Laurent Robert átti mark ársins í leik gegn Spurs en nú var það Darren Ambrose í tapleik gegn Bolton. Síðan ákvað stjórn klúbbsins að verðlauna Steven Taylor fyrir frábæra frammistöðu á síðasta ári og var hann valinn besti ungi leikmaður ársins. Síðast fékk hins vegar Sir Bobby viðurkenningu fyrir frábært starf hjá félaginu." sagði Júlíus í stuttu spjalli við Vísi.is nú í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×