Innlent

Sérsveitin handtók arkitektúrnema

Ítalskur karlmaður var handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra á Kaffi Victor aðfaranótt laugardags. Ástæða handtökunnar var að starfsmenn Alþingis höfðu haft samband við lögregluna vegna manns sem hafði sést á vappi í kringum Alþingishúsið, með hulið andlit, tvo daga í röð. Hann hafði sést mynda húsið í bak og fyrir, auk þess sem hann sást rissa eitthvað niður á blað. Sérsveit lögreglunnar og lögreglan í Reykjavík fóru yfir myndir úr eftirlitsmyndavélum á Austurvelli til að reyna að bera kennsl á manninn. Það reyndist afar erfitt þar sem hann var með húfu og trefil fyrir hluta andlitsins. Við yfirheyrslu kom í ljós að maðurinn er ítalskur nemi í arkitektúr og fannst honum kalt þegar hann stúderaði Alþingishúsið. Honum var sleppt að yfirheyrslum loknum. Neminn hefur eflaust lært sitthvað á ferð sinni til Íslands. Hvort lærdómurinn hefur snúist meira um löggæslu eða arkitektúr er ekki vitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×