Innlent

Lagning nýs vegar hefst í vikunni

Lagning nýs vegar um Svínahraun hefst í þessari viku. Megintilgangur framkvæmdarinnar er að losna við hin hættulegu Þrengslagatnamót en þar varð banaslys í gær. Þetta var annað banaslysið á fimm árum á þessum gatnamótum en þarna hafa orðið harðir árekstrar nánast á hverju ári. Þannig slösuðust þarna tveir menn alvarlega í fyrra. Þessi gatnamót áttu raunar að hverfa síðastliðið haust því til stóð að bjóða verkið út fyrir ári síðan og vinna það síðastliðið sumar. Verkið tafðist hins vegar, einkum vegna kröfu Ölfushrepps um að ný gatnamót yrðu mislæg, og fékk sveitarfélagið því framgengt. Vegagerðin bauð verkið svo loks út um síðustu áramót og fyrir tíu dögum var samið við lægstbjóðanda, KNH á Ísafirði, sem bauðst til að vinna verkið fyrir 277 milljónir króna. Framkvæmdastjóri KNH, Sigurður Óskarsson, segir að fyrstu vinnuvélar verði komnar á svæðið á morgun og stefnt sé að því að vegagerðin hefjist fyrir helgi. Samkvæmt útboðsskilmálum skal verkinu að fullu lokið fyrir septemberlok í haust. Önnur slysagildra sem kostað hefur mannslíf hverfur einnig með nýja veginum, hin varasama beygju neðan Skíðaskálabrekkunnar, því vegurinn mun halda beint af augum yfir Svínahraun. Þannig fæst um leið eins kílómetra stytting sem er þýðingarmikið á svo fjölförnum vegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×