Innlent

Verst fyrir barnafjölskylduna

Í menntamálaráðuneytinu er til umræðu að fella niður afnotagjöld Ríkisútvarpsins og taka í staðinn upp nefskatt og verður frumvarp þessa efnis að öllum líkindum lagt fram á næstu vikum eða mánuðum. Tillögurnar eru ekki fullmótaðar en í dag er miðað við að taka upp nefskatt á alla Íslendinga 16 ára og eldri og undir sjötugu. Til viðbótar eru svo um 10 þúsund greiðendur í formi fyrirtækjanna í landinu. Miðað við 208 þúsund einstaklinga og 10 þúsund fyrirtæki sem greiða rúmar 12 þúsund krónur á ári haldast tekjur Ríkisútvarpsins óbreyttar. Verði skatturinn lagður á 18 ára og eldri þá hækkar skatturinn en þó ekki mikið. Nefskatturinn virðist koma ágætlega út fyrir fjölskyldurnar í landinu. Afnotagjöldin eru í dag 2.164 krónur á mánuði. Einhleypingur á aldrinum 16-67 ára greiðir í dag 32 þúsund krónur á ári en myndi greiða 12 þúsund krónur nái tillögurnar fram að ganga. Tveggja manna fjölskylda græðir líka á breytingunum en strax og fjölskyldan stækkar verður nefskatturinn óhagstæðari. Þannig greiða fjölskyldur með uppkomin börn sem búa heima mest. Fimm manna fjölskylda þar sem öll börnin eru 16 ára og eldri greiðir til dæmis rúmlega 5.000 krónur á mánuði í stað þess að greiða rúmlega 2.000 krónur í dag. Hækkunin nemur um 140 prósentum. Eldri borgarar koma ágætlega út úr breytingunum ef af verða. Sjötugir og eldri greiða ekki skattinn og fá því 12 þúsund króna tekjuaukningu yfir árið. Einstaklingur á aldrinum 67-70 ára borgar í dag tæpar 26 þúsund krónur en færi í 12 þúsund krónur á ári. Bjarni P. Magnússon, innheimtustjóri Ríkisútvarpsins, segir að tekjur RÚV haldist óbreyttar ef nefskatturinn verður tekinn upp. 80 milljóna króna innheimtukostnaður sparist og sömuleiðis komi sér vel að aflétta lífeyrisskuldbindingum og framlagi til Sinfóníunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×