Erlent

Simon Wiesenthal syrgður

Stjórnmálaleiðtogar, mannréttindafrömuðir og talsmenn samtaka gyðinga um allan heim lýstu í gær sorg sinni yfir fráfalli Simons Wiesenthal og báru lof á hugrekki hans og staðfestu við að hafa uppi á stríðsglæpamönnum nasista og draga þá fyrir dóm. Nasistaveiðarinn heimskunni andaðist á heimili sínu í Vínarborg í fyrrinótt, 96 ára að aldri. Moshe Katsav, forseti Ísraels, sagði Wiesenthal hafa verið "mesta baráttumann" sinnar kynslóðar. "Ég tel að hans verði minnst sem samvisku Helfararinnar," sagði Marvin Hier, forstöðumaður skrifstofu Wiesenthal-stofnunarinnar í Los Angeles. Wiesenthal varði yfir 50 árum af ævi sinni í að leita uppi gamla nasista, berjast gegn nýnasisma og kynþáttahatri og fyrir því að helfararinnar gegn gyðingum yrði minnst sem varanlegrar áminningar fyrir allt mannkyn. Fyrir tilstilli Simon Wiesenthal-stofnunarinnar lætur nærri að 1100 stríðsglæpamenn nasista hafi náðst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×