Innlent

Kom ekki að samrunaheimild

Gylfi Magnússon, formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, vísar á bug yfirlýsingum framkvæmdastjóra Iceland Express um meint vanhæfi samkeppnisyfirvalda til að taka á deilum tengdum Flugleiðum. Gylfi kveðst á starfsferli sínum hafa ráðlagt fjölda fyrirtækja í samkeppnismálum. "Eitt þessara fyrirtækja er FL Group, sem hefur raunar síðan þá skipt um nafn, eigendur og helstu stjórnendur án þess að það skipti máli hér. Ég tengist hins vegar engu af þessum fyrirtækjum eða aðilum fjárhagslega eða með öðrum hætti sem máli skiptir lengur. Ég mun vitaskuld ekki vinna við slíka ráðgjöf á meðan ég starfa fyrir Samkeppniseftirlitið," segir hann. Þá bendir Gylfi jafnframt á að ákvörðun um að heimila samruna FL Group, Bláfugls og Flugflutninga hafi verið tekin af samkeppnisráði, sem ekki tilheyri nýju Samkeppniseftirliti. "Ég kom þar hvergi nærri, hvorki fyrir hönd málsaðila né samkeppnisyfirvalda. Ég hef ekki heldur haft nein afskipti af deilum FL Group og Iceland Express vegna auglýsinga þess síðarnefnda."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×